Heilsuleikskólinn Skógarás er staðsettur á Ásbrú í Reykjanesbæ, en Ásbrú er það svæði Reykjanesbæjar sem á árum áður tilheyrði Varnarliði Bandaríkjamanna. Skólinn tók til starfa 2. september 2008 og var upphaflega í sama húsnæði og grunnskólinn Háaleiti, en fluttist í núverandi húsnæði haust 2018.

Þegar Bandaríski herinn yfirgaf varnarsvæði sitt eftir 60 ára veru á Íslandi, þá var svæðinu komið í borgarleg not. Miklar breytingar og þróun áttu sér stað stað á svæðinu og árið 2007 var grunnur að Háskólasamfélagi hér lagður og fluttist hingað fólk allsstaðar af landinu.

Skólinn er rekinn af Skólum ehf. í samvinnu við Reykjanesbæ. Skólar ehf. reka 5 leikskóla sem allir vinna eftir Heilsustefnunni og sumarið 2010 hlaut Skógarás formlega viðurkenninguna að mega kallast Heilsuleikskóli. Markmið Heilsustefnunnar er fyrst og fremst að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu.

Í Heilsustefnunni er unnið markvisst með hreyfingu og sköpun á þann hátt að öll börn fá skipulagðar stundir með sérhæfðum kennurum 1-2 sinnum í viku. Þessar stundir eru fyrirfram skipulagðar og tengjast bæði þeim þáttum sem prófaðir eru í Heilsubók barnsins og áherslum leikskóla. Í næringu er lögð áhersla á hollt heimilisfæði þar sem markmiðið er að auka grænmetis og ávaxtaneyslu og að nota fitu, salt og sykur í hófi. Við samsetningu matseðla er tekið mið af markmiðum Embættis Landlæknis varðandi næringu barna og eru allir matseðlar samþykktir af næringarfræðingi Samtaka Heilsuleikskóla.

Haustið 2010 fór skólinn síðan á „græna grein", en skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni á vegum Landverndar, til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Haustið 2015 hlaut skólinn Grænfánann.

2011 Fór Reykjanesbær af stað með að þróa framtíðarsýn varðandi menntun barna og ungmenna bæjarfélagsins. Þar tóku allir skólar bæjarins þátt í að móta stefnu sem miðar að því að auka læsi- og stærðfræðiþekkingu nemenda. Heilsuleikskólinn Skógarás hefur verið þátttakandi í að móta þá skólastefnu.

Haustið 2014 byrjaði skólinn í verkefni Landlæknisembættisins Heilsueflandi leikskóli.

Heilsuleikskólinn Skógarás býður upp á kærleiksríkt og öruggt umhverfi, þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín, hver á sinn hátt. Við venjum börnin við heilbrigðan lífstíl og vonum við að það muni fylgja þeim inn í fullorðinsárin.

Markmið skólans er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik.

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í Heilsuleikskólanum Skógarás er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu.


© 2016 - Karellen